Þann 1. september nk. hefur sr. Sigurður Már Hannesson störf sem prestur í Seljakirkju. Hann tekur við af sr. Bryndísi Möllu Elídóttur sem var valinn til að gegna starfi prófasts Reykjavíkurprófastsdæmis eystra og mun því láta af þjónustu við Seljasöfnuð um næstu mánaðarmót og eru henni þökkuð góð störf í þágu safnaðarins.
Sigurður Már Hannesson er fæddur 1990 og uppalinn í Reykjavík.  Hann lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 2010, stundaði nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands en leiðin lá svo í guðfræðideildina.
Árið 2016 stundaði sr. Sigurður Már skiptinám þar sem hann nam guðfræði við Kaupmannahafnarháskóla.

Sr. Sigurður Már útskrifaðist með mag. theol.-próf frá Háskóla Íslands vorið 2020.
Hann var vígður til prestsþjónustu hjá Kristilegu skólahreyfingunni í mars 2021. Jafnframt sinnti hann ýmsum verkefnum fyrir KFUM og KFUK.  Sr. Sigurður Már hefur starfað í sunnudagaskóla hjá Grensáskirkju og Dómkirkjunni í Reykjavík ásamt því að hafa starfað sem æskulýðsfulltrúi í Ástjarnarkirkju. Samhliða starfi sínu hjá Kristilegu skólahreyfingunni sinnti hann afleysingum í Laugardalsprestakalli síðastliðið vor.

Eiginkona sr. Sigurðar Más er Heiðdís Haukdal Reynisdóttir, verkefnastjóri í rafrænum kennslumálum hjá Háskóla Íslands. Þau eiga eina dóttur.

(Mynd og texti frá kirkjan.is)